26. janúar 2017
Heilsa og forvarnir á heilsugæslu Fjarðaáls
Innan Alcoa Fjarðaáls starfar teymi að umhverfis-, öryggis- og heilsumálum. Þrír starfsmenn heyra beint undir heilsuna, Elín H. Einarsdóttir, iðnaðarheilsufræðingur og hjúkrunarfræðingarnir Heiðrún Arnþórsdóttir og Svanbjörg Pálsdóttir. Í álverinu er vel útbúin heilsugæsla sem er opin alla virka daga frá 8-16 og hafa hjúkrunarfræðingarnir viðveru þar. Fjarðaál er einnig með samning við HSA um að veita þar læknisþjónustu tvisvar í viku, þrjá tíma í senn. Meginmarkmið starfsins er að fyrirbyggja atvinnutengda sjúkdóma hjá starfsmönnum.
T.f.v. Hjúkrunarfræðingarnir Heiðrún Arnþórsdóttir og Svanbjörg Pálsdóttir ásamt Elínu H. Einarsdóttur, iðnaðarheilsufræðingi, huga að heilsu og velferð starfsmanna.
Ábyrgð starfsmanna í forvörnum er að nota heyrnar og öndunarvarnir þar sem við á og hirða vel um búnaðinn sinn. Einnig þurfa þeir þekkja efnin sem unnið er með og varast að fá þau í eða á líkamann. Mikilvægt er fyrir starfsmenn að passa líkamsbeitingu og leita á heilsugæslu strax ef einhver einkenni gera vart við sig.
Helstu verkefni í forvörnum eru:
- Víðtæk heilsufarsskoðun við ráðningu til að fá góða mynd af heilsufari sem hægt er að miða við ef breytingar á heilsu verða. Undirliggjandi heilsuvandamál eru einnig greind. Skoðun felur m.a. í sér heyrnar- og öndunarmælingu, hjartalínurit, heilsufarssögu, læknisskoðun, sjónpróf og blóðþrýstingsmælingu.
- Í hverju starfi eru metnir áhættuþættir sem geta haft áhrif á heilsu starfsmanna, t.d. á heyrn, öndunarfæri og stoðkerfi. Mælingar eru gerðar á hávaða og loftgæðum.
- Allir starfsmenn í framleiðslu og iðnaðarmenn koma árlega í heyrnamælingu og margir í öndunarmælingu ýmist á eins eða þriggja ára fresti. Á þriggja ára fresti eru einnig gerðar ítarlegri heilsufarsskoðanir.
- Fræðsla um forvarnir gegn atvinnusjúkdómum við upphaf starfs og svo reglubundið þegar starfmaður kemur í heilsufarsskoðun.
- Ef starfsmaður leitar á heilsugæslu með álagstengd stoðkerfisvandamál, húðvandamál eða ofnæmi er reynt að finna rót vandans og leysa hann, ásamt því að meðhöndla einkennin.
- Læknir getur gefið út vinnutakmörkun á meðan starfsmaður er að jafna sig. Þannig er hægt að grípa inn í áður en vandinn verður langvinnur.
Auk öflugs fornvarnarstarfs eru mörg önnur verkefni á könnu heilsuteymis. Starfsmenn geta leitað á heilsugæslu með hvaða heilsutengdu erindi sem er hvort sem þau eru vinnutengd eða ekki, og eru starfsmenn duglegir að nýta sér það. Meðalfjöldi koma á heilsugæslu er um 280 á mánuði.
Heilsugæslan býður upp á inflúensubólusetningar og ýmsar heilsumælingar svo sem á blóðþrýstingi, púls, hæð og þyngd. Hægt er að fá mældan blóðsykur, hemoglobin og kólesteról. Í boði er fyrir alla starfsmenn og verktaka að sækja reglulega námskeið í endurlífgun og almennri skyndihjálp og sjá hjúkrunarfræðingar Fjarðaáls um þau námskeið, sem haldin eru mánaðarlega.
Blóðþrýstingsmæling í heilsugæslu Fjarðaáls.
Víðtæk velferðarþjónusta Fjarðaáls
Starfsmenn Alcoa Fjarðaáls hafa aðgang að víðtækri velferðarþjónustu í gegnum fyrirtækið Heilsuvernd sér að kostnaðarlausu. Heilsuvernd hefur sérhæft sig í að veita þjónustu á sviði heilsu- og vinnuverndar. Hverjum starfsmanni býðst að hámarki að nýta sér sex klukkustundir í þjónustu á ári og getur einnig ráðstafað þeim til maka eða barna.
Tilgangur þjónustunnar er að stuðla að auknum lífsgæðum starfsmanna, auka færni til að takast á við óvænt áföll og erfiðleika, auka starfsánægju, minnka starfsmannaveltu, ásamt því að auka öryggi starfsmanna og ástvina þeirra.
Eftirfarandi þjónusta er í boði:
- Lífstílsráðgjöf
- Hjónabands- og fjölskylduráðgjöf
- Vandamál tengd fíkn
- Fjármálaráðgjöf
- Streitu- og tilfinningastjórnun
- Ráðgjafaþjónusta geðlæknis eða geðhjúkrunarfræðings
- Sálfræðiráðgjöf
- Lögfræðiráðgjöf
- Áfallahjálp
- Starfsendurhæfing.
- Aðstoð við að greina og meta úrræði vegna langvarandi heilsubrests í nánustu fjölskyldu (foreldrar, makar og börn)
- Svefnmeðferð
- Ítarleg heilsufarsskoðun eftir 50 ára aldur
Styrkir vegna velferðar og heilsu
Starfsmenn geta sótt um ýmsa styrki vegna velferðar og heilsu og er tilgangur þeirra einnig að auka lífsgæði starfmanna. Meðal annars er styrkt líkamsrækt, laseraðgerð, göngugreining eða innlegg ásamt meðferð hjá kíropraktor, sjúkraþjálfara, nuddara og fótaaðgerðarfræðingi. Nýr styrkur mun bætast við í janúar 2017 en það ristilspeglun í forvarnarskyni gegn ristilkrabbameini. Sá styrkur er fyrir starfsmenn 50 ára og eldri og 45 ára og eldri ef fjölskyldusaga er um ristilkrabbamein.
Nánar er fjallað um heilsu og heilsueflingu í nýjasta tölublaði Fjarðaálsfrétta. Hægt er að nálgast blaðið, hér á vef Alcoa Fjarðaáls. Blaðið var borið í hús á Austurlandi í byrjun janúar. Hægt er að óska eftir eintaki af blaðinu með því að senda tölvupóst á netfangið ragnar.sigurdsson(hjá)alcoa.com