16. febrúar 2017
Fjarðaál styrkir nýsvein til framhaldsnáms
Nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur fór fram í Ráðhúsi Reykjavíkur laugardaginn 4. febrúar. Þar veitti forstjóri Alcoa Fjarðaáls einum nýsveini styrk til áframhaldandi náms erlendis.
Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur fagnar í ár 150 ára afmæli félagsins og nú var í ellefta skipti haldin nýsveinahátíð. Á hátíðinni var löggiltum sveinum úr iðn- og verkgreinum veitt verðlaun fyrir afburðaárangur í sinni iðngrein á sveinsprófi. Hátíðin fór fram í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur og viðstaddir voru forseti Íslands, sem er verndari hátíðarinnar, mennta- og menningarmálaráðherra, iðnaðarráðherra og borgarstjóri Reykjavíkur.
Alcoa Fjarðaál hefur frá árinu 2013 veitt styrk til sveins sem hyggur á framhaldsnám í sinni grein erlendis og á því var engin breyting í ár. Að þessu sinni hlaut Katrín Ósk Stefánsdóttir styrkinn en hún lauk námi í framreiðslu. Styrkurinn er veittur fyrir elju, dugnað og framúrskarandi árangur á sveinsprófi og hugsaður sem hvatning til nýsveinsins til að afla sér frekari menntunar á sínu sviði erlendis. Styrkupphæðin var 300 þúsund krónur.
Á myndinni má sjá Katrínu Ósk og Magnús Þór ásamt Katrínu Þorkelsdóttur stjórnarmann í Iðnaðarfélagi Reykjavíkur.
Það var Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Fjarðaáls sem afhenti Katrínu styrkinn. Magnús færði Iðnaðarmannafélaginu hamingjuóskir frá Fjarðaáli í tilefni af 150 ára afmæli félagsins. Hann benti á að Fjarðaál fagni einnig stórafmæli á þessu ári og að samanlagt væru félögin 160 ára! Jafnframt sagði Magnús að Fjarðaál og verktakafyrirtæki sem þjónusta álverið legðu öll áherslu á að taka iðnnema í starfsnám og að ánægjulegt væri að hjá Fjarðaáli væri núna jafnt hlutfall karla og kvenna í starfsnámi, þrjár konur og þrír karlar.
Nýverið hlaut Fjarðaál Menntaverðlaun atvinnulífsins en meðal þeirra verkefna sem var horft til við það val var stuðningur sem fyrirtækið hefur veitt grunnskólum í Fjarðabyggð gagngert til að auka áhuga nemenda á lokaárum grunnskóla á iðnmenntum. Árangurinn hefur verið aukning þeirra sem sækja í iðnnám að grunnskóla loknum.