10. mars 2017

Þarf að fræða almenning meira um sjálfbærni

Samfélagssjóður Alcoa (Alcoa Foundation) veitir stærri og minni styrki til góðgerðarfélaga með sérstakri áherslu á umhverfis- og fræðslumál. Fjöldi félagasamtaka og stofnana á Íslandi hafa fengið styrki frá sjóðnum í ýmsu formi, bæði beint og með sjálfboðaliðastarfi starfsmanna.

Undanfarin tíu ár hefur Samfélagssjóður Alcoa unnið í samstarfi við alþjóðlegu umhverfissamtökin Earthwatch. Samstarfið felst í því að sjóðurinn tekur þátt í rannsóknum samtakanna með því að greiða þátttökugjald fyrir starfsmenn sem taka þátt í rannsóknarleiðangri á vegum þeirra. Valdir starfsmenn fá að aðstoða vísindamenn við að rannsaka hluti sem eru mikilvægir fyrir  umhverfið og Alcoa, t.d. loftslagsmál, sjálfbæra þróun og vatnsframboð á heimsvísu. Samfélagssjóður Alcoa greiðir allar ferðir og uppihald ásamt þátttökugjaldi í leiðangrinum sem er yfirleitt um 400.000 krónur.

Í gegnum árin hafa nokkrir íslenskir starfsmenn Alcoa verið svo heppnir að lenda í hópi hinna útvöldu og farið á fjarlægar slóðir, t.d. til Kína, Ástralíu, Kanada og Suður-Ameríku. Á síðasta ári datt Ingólfur Tómas Helgason, tæknistjóri kerskála Fjarðaáls í lukkupottinn. Hann fór í vikuferð, 14.-20. ágúst, til þess að fræðast um loftslagsmál í skóglendi Wytham Woods í Oxford. Þesss skal getið að valinn starfsmaður heldur launum sínum á meðan á leiðangrinum stendur og missir enga orlofsdaga.

Ingólfur segist hafa orðið fyrir mikilli vitundarvakningu á þessari viku: „Ef ég á að lýsa því hvernig þetta verkefni hafði áhrif á mig langar mig að segja að það opnaði vel augu mín fyrir þeim áhrifum sem við erum að hafa á jörðina með lifnaðarháttum okkar. Ég vissi að vandamál með hitnun jarðar væri í gangi og maður hefur heyrt talað um gróðurhúsaáhrif og breytt loftslag í mörg ár en aldrei beint áttað sig á því. Þetta hefur bara alltaf verið í umræðunni. Í þessu verkefni, sem ég tók þátt í, var hópurinn að gera mælingar á daginn og fékk svo fræðslu á kvöldin sem gerði það að verkum að við áttuðum okkur betur á þessu. Hitnun jarðar er alls staðar í kringum okkur svo þetta mun hafa áhrif á líf okkar og aðkomendur okkar í framtíðinni.“

Ingolfur_3
Ingólfur vann m.a. við mælingar á áhrifum loftslagsbreytinga í Wytham Woods.

Eftir heimkomuna hafa umhverfismál verið Ingólfi mjög hugleikin. „Þetta námskeið virkar,“ segir hann.

En hvað er til ráða til að stöðva þessa ógnvænlegu þróun? Ingólfur kann svör við því: „Sjálfbærni. Ég hafði ekki heyrt um sjálfbærni í öðru en hér hjá okkur og „sjálfbærni í sjávarútvegi“ áður en ég tók þátt í verkefninu. Við fórum vel í hvað sjálfbærni er og hvernig sé hægt að lifa en skemma ekki auðlindir jarðar fyrir komandi kynslóðir. Það er vel hægt án þess að fórna góðu lífi og maður þarf ekki að lifa eins og hippi eins og flestir halda. Það var mjög áhugavert að fræðast um þann hluta líka.“

Ingolfur_4
Hluti hópsins við vettvangsrannsóknir í skóglendi Wytham Woods í Oxford. Ingólfur er lengst t.h.

Ingólfur nefnir sjálfbærniverkefni Fjarðaáls og Landsvirkjunar. „Þetta er frábært verkefni sem er nauðsynlegt en alltof lítið er um svona verkefni að sjávarútveginum undanskildum. Mér finnst ekki vera gert nógu mikið úr þessu verkefni og sjálfbærni yfir höfuð í samfélaginu.“

Að lokum segir Ingólfur: „Það var rosalega gaman og fróðlegt að taka þátt í þessu. Ég kynntist fullt af frábæru fólki sem vinnur fyrir Alcoa um allan heim og við erum flest ennþá í sambandi í dag.“

Ingólfur mælir hiklaust með því að aðrir starfsmenn Fjarðaáls sæki um að fara í Earthwatch leiðangur. Árið 2017 býðst þeim að sækja um ferð á heimskautasvæðið í Kanada og starfa við Churchill rannsóknarstöðina en umsóknarfrestur rennur út þann 10. mars.

Ingolfur_hopmynd
Ingólfur T. Helgason segist hafa kynnst góðu fólki sem var með honum í leiðangrinum. Hér er hópurinn en Ingólfur er lengst t.v.