27. júní 2017
Ferðafélag Fljótsdalshéraðs setur upp vegvísa að heiðarbýlum
Síðastliðið haust fékk Ferðafélag Fljótsdalshéraðs úthlutað styrk frá Samfélagssjóði Alcoa Fjarðaáls vegna vegvísa eða varða sem til stóð að setja við upphaf gönguleiðar á 22 heiðarbýli á Jökuldalsheiði og Vopnafjarðarheiði. Þá styrkti sjóðurinn í vor útgáfu nýs Heiðarbýlabæklings, sem verður uppsettur líkt og Perlubæklingur sem Ferðafélagið hefur gefið út og á miklum vinsældum að fagna.
Hjördís Hilmarsdóttir er umsjónarmaður Heiðarbýlaverkefnisins. „Við vorum með hugmynd af vegvísum til að setja upp við 22 heiðarbýli. Við nánari skoðum breyttum við fyrri hugmynd þar sem við duttum niður á afar skemmtilega vegvísa á Víknaslóðum. Þeir vegvísar falla vel að náttúrunni og við hlöðum grjót upp með þeim. Styrkurinn dugði fyrir framleiðslu á 23 vegvísum, þar sem tveir fara á eitt heiðarbýlið, og einu skilti sem sýnir hringleið á hluta býlanna. Byggðasaga Heiðarbýlanna er einstök og áhugavert fyrir fólk að finna býlin. Vegvísarnir munu gera fólki auðveldara að finna upphafsstað göngu að býlunum.“
Að sögn Hjördísar er uppsetningin unnin af sjálfboðaliðum og vonir standa til að verkefninu verði lokið í júlí. „Við hófum uppsetningu á vegvísunum um hvítasunnuna,“ segir hún, „og nú þegar eru átján vegvísar komnir upp."
Gönguleikur og bæklingur
Ferðafélag Fljótsdalshéraðs er með með heilmikið í gangi vegna heiðarbýlanna á Jökuldals- og Vopnafjarðarheiðum. Hjördís segir: „Við erum með gönguleik þar sem fólk fer á býlin og stimplar í þar til gerð kort og skilar svo inn til ferðafélagsins þegar stimplað hefur verið á tíu heiðarbýlum. Þeir sem skila inn fullstimpluðu korti lenda í potti sem dregið er úr í september á hverju ári en veglegir vinningar eru í boði. Á hverju býli er staukur með gestabók, stimpli og upplýsingum um býlið sem og íbúatal.“
„Það er alltaf töluvert um Íslendinga sem fara á Heiðarbýlin, meðal annars vegna gönguleiksins, vegna áhuga á sögu býlanna og loks vegna þess að fólk á ættir sínar að rekja til þessara býla. Mjög margir Vestur-Íslendingar eiga rætur sínar að rekja á býlin á þessum tveimur heiðum. Þaðan var mikill straumur til Vesturheims í kjölfar Öskjugossins 1875,“ segir Hjördís.
Félagið fékk einnig styrk frá Alcoa til að uppfæra bækling vegna býlanna og mun hann sennilega verða tilbúinn næsta vetur. Hjördís segir: „Þegar bæklingarnir eru komnir út langar mig að fara á þjóðræknisþing í Edmonton í Canada í apríl 2018 og kynna ferðir á býlin fyrir Vestur Íslendinga, þar sem þeir koma gjarnan og leita upprunans.“
Þess má geta að að ferðafélagið lætur ekki deigan síga og er einnig að láta framleiða þrjú skilti sem félagsmenn munu setja upp þar sem erfitt er að átta sig á hvernig best er að ganga að þessum heiðarbýlum. Fljótsdalshérað og Vopnafjarðarhreppur greiða fyrir tvö þeirra en Alcoa það þriðja. Annað verkefni sem félagið mun standa fyrir er „Páll og heiðarbýlin“ en fljótlega verður hafist handa við upptökur kvikmyndar með Páli Pálssyni á heiðum uppi þar sem hann segir sögu þessara býla. Uppbyggingastjóður Austurlands styrkti félagið til að geta hafið það verkefni.
Að lokum segir Hjördís: „Við erum afar þakklát þessum aðilum fyrir að sýna verkefnunum okkar þessa jákvæðu athygli.“
Hér fyrir neðan má sjá nokkra af þeim vegvísum sem búið er að setja upp.