31. ágúst 2017
Fjölmenni á tíu ára afmælishátíð Fjarðaáls
Laugardaginn 26. ágúst hélt Alcoa Fjarðaál upp á tíu ára afmæli fyrirtækisins. Enda þótt fyrirtækið hafi formlega verið stofnað árið 2003 var fyrsta kerið gangsett í apríl árið 2007 og í júní það ár bauð Fjarðaál gestum og gangandi til mikillar opnunarhátíðar.
Margt spennandi var í boði fyrir gestina í boði Fjarðaáls og starfsmannafélagsins Sóma. Meðal annars var boðið upp á skoðunarferðir um álverið, álbílasýningu, listsýningar Odee og Studio Eyjolfsson, tónlist og kaffiveitingar. Þá var einnig haldin keppnin um Austfjarðatröllið í réttstöðulyftu. Eiríkur Fjalar stjórnaði skemmtidagskrá á sviði en fram komu Sirkus Íslands, Leikhópurinn Lotta, Einar Mikael töframaður, Söngvaborg, Latibær og Ingó Veðurguð.
Skoðunarferðirnar um álverið voru vinsælar og stolt starfsfólk á vinnusvæðunum sýndi fjölskyldum og öðrum gestum framleiðsluferli Fjarðaáls, vinnusvæðin og afurðirnar.
Grillveitingar, humarsúpa, sykurull, frostpinnar og fleiri veitingar runnu ljúft ofan í gestina og krakkarnir skemmtu sér í hoppuköstulum og fengu andlitsmálun. Þá var einnig gamli Sómastaðabærinn til sýnis með leiðsögn
Að lokinni skemmtun Fjarðaáls og starfsmannafélagsins Sóma var opið hús hjá Eimskipafélaginu, Launafli, VHE og Slökkviliðinu.
Skemmtunin hélt áfram um kvöldið kl. 19:30 en þá voru rokktónleikar við smábátahöfnina á Reyðarfirði. Fram komu Anya Hrund Shaddock, Þórunn Antonía, Emmsjé Gauti, Stelpurokk, Brain Police og Helgi Björnsson ásamt hljómsveit.
Hátíðinni lauk um kl. 23:00 með glæsilegri flugeldasýningu sem björgunarsveitin Ársól á Reyðarfirði sá um og vakti mikla hrifningu hjá áhorfendum.
Myndirnar hér fyrir neðan lýsa hátíðarstemmingunni mjög vel.
Alcoa Fjarðaál þakkar öllum þeim sem stóðu að hátíðinni, svo og gestum og samfélaginu öllu fyrir samveruna á hátíðinni og árangursríka samvinnu á undanförnum áratug. Við hlökkum til að eiga fleiri ánægjustundir með Austfirðingum á komandi árum.