16. október 2018
150 manns perluðu af krafti fyrir Kraft
Í gær, mánudaginn 15. október, stóð Alcoa Fjarðaál fyrir stærsta Action-verkefni til þessa en fyrirtækið leggur mikið upp úr sjálfboðaliðavinnu starfsmanna í þágu samfélagsins með samvinnu við ýmis félagasamtök. Um 150 manns tóku þátt í verkefninu, sem stóð frá kl. 14:30 - 17:30 í matsal Fjarðaáls. Tilefnið var m.a. Bleikur október.
Kraftur, í samstarfi við Fjarðaál, Krabbameinsfélag Austfjarða og Krabbameinsfélag Austurlands, lagði leið sína austur og perlaði með starfsfólki Fjarðaáls og íbúum Austurlands. Allir voru velkomnir í matsalinn til þess að taka þátt og Fjarðaál var með heitt á könnunni.
Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls segir í viðtali við Austurfrétt: „Þetta er málefni sem allir tengja við og krabbamein er sjúkdómur sem snertir okkur öll á einhvern hátt. Þess vegna eru allir eru tilbúnir til að vera með og leggja sitt af mörkum fyrir málstað sem þennan, en þann samhug sáum við svo sannarlega í gær.“
Samtals perlaði fólkið 750 armbönd og er söluandvirði þeirra ein og hálf milljón. Auk þess styrkti Fjarðaál þrjú góðgerðafélög með verkefninu þar sem 300 þúsund krónur runnu til Krafts, Krabbameinsfélags Austurlands og Krabbameinsfélags Austfjarða, eða 900 þúsund krónur í allt.
Eins og myndirnar sýna vann fólk af brennandi áhuga að þessu góða verkefni. Fjarðaál þakkar öllum sem tóku þátt hjartanlega fyrir framlag þeirra í þágu krabbameinsgreindra og fjölskyldna þeirra.