23. desember 2019
Starfsmenn Landsnets fá hrós frá Alcoa Fjarðaáli
Stjórnendur Alcoa Fjarðaáls vilja koma á framfæri þökkum til starfsmanna Landsnets fyrir fumlaus vinnubrögð við að koma Fljótsdalslínu 4 með öruggum og skjótum hætti í gagnið og tryggja þannig afhendingaröryggi á raforku til álversins við Reyðarfjörð. Landsnet einhenti sér í verkefnið við erfiðar aðstæður og tryggði mannskap, tæki og verktaka til að koma línunni aftur í rekstur á eins stuttum tíma og mögulegt var án þess þó að slá af kröfum um öryggi við krefjandi veðuraðstæður.
Á sama tíma var mikið eftirlit með Fljótsdalslínu 3 til að tryggja að ísing myndi ekki trufla rekstur hennar á meðan hin línan var úti. Afhendingaröryggi raforku er gífurlega mikilvægt álverinu sem stólar á að missa ekki niður straum en það hefur mikil áhrif á stöðugleika og framleiðslu.