16. janúar 2020
Allt nýtt sem hægt er að nýta
Lára Elísabet Eiríksdóttir er Eskfirðingur, brautryðjandi og orkubolti. Árið 2003 þegar Fjarðaál var að opna skrifstofu á Reyðarfirði, var hún ráðin til þess að sjá um ræstingar. Eftir því sem atvinnulífið á Austurlandi þróaðist næstu árin þar á eftir réði hún til sín fleiri og fleiri starfsmenn til þess að ráða við öll verkefnin sem henni buðust. Lára stofnaði fyrirtækið Fjarðaþrif árið 2005 og nú eru starfsmenn þess orðnir 37 talsins. Flestir þeirra vinna við þrif í fyrirtækjum en fjórir í þvottahúsi og þurrhreinsun sem Lára setti upp á Eskifirði. Hugmyndaflugi Láru eru engin takmörk sett og einstakt, umhverfisvænt verkefni sem hún hefur ráðist í samhliða rekstri þvottahússins, vakti athygli Fjarðaálsfrétta. Við spurðum hana nánar út í það áhugaverða endurvinnsluframtak.
Umhverfisverndarmál eru mikilvæg
Fjarðaþrif var fyrsta ræstingarþjónstan á landsbyggðinni til þess að hljóta Svansvottum Umhverfisstofunar. „Já, við erum með græna svaninn, við fengum hann aftur 2018 og það gildir til 2021. Ég er ekki búin að fá vottun á sjálft þvottahúsið, þetta gildir fyrir ræstinguna, en við vinnum og kaupum inn fyrir þvottahúsið með þá vottun í huga. En það er eitt og annað sem kemur inn í þvottahúsið og þá þarf að nota efni sem eru kannski ekki alveg eins umhverfisvæn. Við erum líka með þurrhreinsun og það er mjög erfitt að vera með 100% umhverfisvæn efni í henni.“
Þvottahúsið hefur um árabil séð um þvott á vinnufatnaði starfsfólks Fjarðaáls. Láru fannst það synd að farga fötum sem einn starfsmaður hafði notað, og fyrir um 3-4 árum síðan fékk hún þá hugmynd að endurnýta fötin, merkja þau og láta nýtt starfsfólk hafa notuð. „Ef einhver hættir þá förum við yfir fötin hans og ef þau eru í lagi, þá nýtum við þau aftur. Þeir sem koma til dæmis inn á byrjendanámskeið fá eitt nýtt sett og kannski tvö notuð. Ef við eigum notað sem er í lagi, þá hikum við ekki við að senda það út. Fólki á að vera sama, því það er hvort sem er í innanundirfötum og er aldrei beint í snertingu við þennan fatnað.“
Saumastofa í þvottahúsinu
Lára setti upp lítið saumahorn í þvottahúsinu á Eskifirði. „Mér stóð til boða iðnaðarsaumamaskína sem ég keypti og það er hægt að nota hana í ýmislegt. Það var nefnilega svo mikið til af vinnufatnaði sem fólkið var hætt að nota. Fötin voru alveg heil og vel farin þannig að við tókum upp á að endurnýta þau. Svo voru skemmd föt, kannski rifin önnur ermin á jakka. Til þess að við getum nýtt þetta meira, þá höfum verið að nota það sem er heilt á notuðum fötum í bætur á öðrum fötum.“ En það er ekki endalaust hægt að bæta og staga í vinnufatnað sem hefur stóru öryggishlutverki að gegna. „Það er hægt að gera við eitthvað visst mikið af hverri flík – það mega bara vera litlar viðgerðir á þeim til að þær gagnist áfram.“
„Það er svo gaman að fylgjast með stelpunum fjórum í þvottahúsinu,“ segir Lára. „Þær vinna í saumaskapnum þegar það er ekkert annað að gera: ef það er verið að bíða eftir vélunum eða rólegur dagur.“ Ein af starfsmönnunum er íslensk, hún er reyndar dóttir Láru, og þrjár eru pólskar, þar af ein með góða reynslu frá saumastofu í Póllandi.
Skikkjur og grímupokar
Snillingunum á saumastofunni datt í hug að nota bakið á jökkum sem hættir voru í notkun og sauma úr þeim skikkjur á hjálmana til að verja hálsinn á starfsmönnum, svo þeir verði ekki fyrir slettum. Láru hafði blöskrað að heyra hvað Fjarðaál var að borga fyrir nýjar svona skikkjur, og það sama gildir um grímupokana. Starfsmenn Fjarðaáls höfðu fengið afhenta appelsínugula grímupoka þegar þeir hófu störf. „Fólk var að krota nafnið sitt á þá,“ segir Lára. „Þeir voru oft mjög skítugir og þetta var að koma í þvott. Svo var einhver kannski hættur sem var með þennan poka og þá var enginn sem vildi nota hann af því að hann var allur útkrotaður. Þannig að við fórum að prófa að sauma grímupoka, bara úr ónýtum fötum, úr ermum og fleira. Það koma kannski buxur sem er rifin önnur skálmin á. Þú getur fengið til dæmis tvo grímupoka úr hinni skálminni. Annars hefði það bara farið í ruslið.“
Hvað kom þá í staðinn fyrir krotið? „Við setjum miða á pokana sem hægt er að skipta um, þannig að þú getur skrifað nafnið þitt á miðann og svo skiptum við bara um miða á eftir. Þannig að það er hægt að endurnýta pokana aftur og aftur. Nú er ekki langt síðan við byrjuðum á þessum pokum, það var bara á þessu ári. Þeir eru mun snyrtilegri en þessir gömlu, appelsínugulu. Ég held að það sé rándýrt fyrir Fjarðaál að kaupa fötin, bæði skikkjurnar og grímupokana. Það er kannski skiljanlegt að það sé dýrt ef þú ert að kaupa efni í metratali. En ef maður getur nýtt rifin föt í þessum tilgangi, þá er það góður sparnaður.“
Lager af „varahlutum“ fyrir föt
Lára heldur áfram að lofa starfsmennina í þvottahúsinu: „Meira að segja ef það er ekkert að gera þá eru þær jafnvel að spretta rennilásum af buxum sem eru ónýtar, ef rennilásinn er heill. Það er allt nýtt sem hægt er að nýta. Þær hafa tekið vasa innan úr slitnum buxum, sem eru heilir, til að skipta um vasa í buxum sem eru heilar en bara innanávasarnir eru ónýtir. Ef við tökum eftir því að beltishankarnir eru slitnir á buxum, þá eiga þær tilbúna hanka sem voru klipptir af öðrum buxum. Þetta er alltaf til „á lager“. Ef það koma til dæmis buxur sem eru með ónýtum vösum, þá eigum við tilbúna vasa einhvers staðar niðri í skúffu. Þær kippa hinum bara af og sauma þessa á. Forvinnan hjá þeim er svo góð að þetta er lítið mál í rauninni.“
En er hægt að nýta allt saman? „Það er ekki alltaf hægt. Í kerskálanum eru allir til dæmis í Kevlar-buxum með leðri framan á frá hné og niður til að hlífa fólki við slettum. Það er svona síst hægt að endurnýta þessar buxur. En ef eitthvað kemur í þvottahúsið sem er mjög slitið og ljótt þá tökum við það frá og setjum í sér hillu. Við hendum líka frá ef efnið er farið að trosna. Föt eða bútar af fötum sem er ekki hægt að endurnýta fara í ferli hjá Terra – sem áður var Gámaþjónustan.“
Við fögnum þessu framtaki Láru og óskum henni og starfsfólki hennar alls hins besta í framtíðinni.
Lára ásamt starfsmönnum sínum í þvottahúsinu og á saumastofunni. F.v. Zoja, Anja, Lára, Zusanna og Dísa dóttir Láru.