07. maí 2021
Ásgrímur Sigurðsson valinn í fagráð hjá HR
Nýlega var Ásgrímur Sigurðsson framkvæmdastjóri viðhalds og áreiðanleika hjá Fjarðaáli beðinn um að taka sæti í fagráði vél- og orkusviðs innan iðn- og tæknifræðideilar HR. Fagráðin hafa aðkomu að þróun náms við deildina og eiga að tryggja að námið svari þörfum atvinnulífsins svo fyrirtæki fái til sín útskrifaða nemendur með þá þekkingu sem krafist er í nútíma starfsumhverfi.
Ásgrímur er í grunninn menntaður rennismiður en útskrifaðist sem vél- og orkutæknifræðingur frá HR árið 2008 svo hann þekkir vel til skólans. Það er mikilvægt fyrir stóran vinnustað eins og Fjarðaál að vera í góðu sambandi við háskólaumhverfið og því gott að eiga fulltrúa í nefndum sem þessari.
Í viðtali sem birtist í á fréttavefnum Vísi þann 6. maí sl. ræddi blaðamaður m.a. við Ásgrím um skort á framboði varðandi þá grein tæknimenntunar á Íslandi sem snýr að áreiðanleika viðhalds.
Ásgrímur segir í viðtalinu: „Við hjá Fjarðaáli höfum verið að senda fólk frá okkur til útlanda í svona nám en auðvitað væri hentugra fyrir alla aðila ef námið væri aðgengilegt hér á landi. Því er mikilvægt að koma þessum fögum inn í tæknifræðinám hér. Það nám er nú þegar sterkur grunnur enda er það mjög praktískt og hefur verið eftirsótt af iðnaðarmönnum til framhaldsmenntunar.“
Þá segir Ásgrímur mikilvægt að horfa til þeirra faga sem atvinnulífið vantar. „Þess vegna er þetta samtal milli háskólasamfélagsins og atvinnulífsins svo mikilvægt. Við þurfum að tryggja að það sé gott flæði þarna á milli svo háskólarnir séu að skila af sér fólki sem er tilbúið að takast á við þau mikilvægu verkefni sem bíða þeirra hjá fyrirtækjunum.“
Um þessar mundir skoðar Menntamálaráðuneytið að setja upp háskólasetur á Austurlandi í samvinnu við Háskólann á Akureyri og Háskólann í Reykjavík. Tæknifræðimenntun yrði þá áhersla hjá setrinu. Alcoa Fjarðaál fagnar að það samstarf sé komið á og að Ásgrímur sitji nú í fagráði HR.
Ásgrímur Sigurðsson, framkvæmdastjóri viðhalds og áreiðanleika hjá Alcoa Fjarðaáli