22. júní 2021
Fjölbreytileikanum fagnað hjá Alcoa Fjarðaáli
Fyrir ekki svo löngu síðan kostaði það mikinn kjark að „koma út úr skápnum“ á vinnustað, þar sem afleiðingarnar gætu verið einelti og jafnvel útskúfun. Alcoa hefur um árabil lagt áherslu á jafnrétti og fagnað fjölbreytileika en í ár hefur verið lögð sérstök áhersla á fræðslu um fjölbreytileika og meðtalningu, það er að allir eru taldir með, óháð kynþætti, uppruna, kynhneigð eða kynsamsömun. Hluti af þessu átaki var sérstök gleðivika dagana 14.-18. júní, sem starfsstöðvar Alcoa um allan heim tóku þátt í en hún verður haldin í júnímánuði á hverju ári héðan í frá.
Allir eiga skilið jöfn tækifæri
Rebekka Rán Egilsdóttir, öryggisstjóri hjá Fjarðaáli stóð fyrir átakinu í álverinu. Hún segir að gleðivikan hafi gengið út á einhvers konar vitundavakningu í formi sýnileika og fræðslu. „Alcoa er mjög umhugað um að allir séu jafnir og eigi skilið jöfn tækifæri,“ segir hún. „Við erum heppin á Íslandi vegna þess hversu langt við erum komin en við þurfum samt að halda áfram þar til það hættir að vera eitthvað tiltökumál hvern einstaklingur ákveður að elska, hvernig einhver lítur út eða af hvaða kyni hann er.“
Gleðivikan hófst á því að regnbogafánum var flaggað fyrir utan skrifstofubygginguna. Síðan var mötuneytið skreytt og boðið var upp á gleðiköku í miðri vikunni. „Við fengum Þórhall Jóhannsson frá samtökunum Hinsegin Austurlandi til þess spjalla við starfsmenn á Teams og svara spurningum. Ég fór einnig út á svæðin með fánann og spjallaði við fólk. Þess má geta að ein vinnustöðin í steypuskálanum hjá okkur er máluð í litum regnbogafánans,“ segir Rebekka Rán.
Fræðsla um fjölbreytileika
Umsjónarmenn gleðivikunnar buðu upp á tvenns konar viðburði á Teams. Sá fyrri var á vegum Alcoa um allan heim en hann fólst m.a. í erindi frá transkonunni Bobbi Pickard þar sem hún talaði um áskoranir transfóks og fordóma sem hún upplifir í sínu daglega lífi. Rebekka Rán segir að erindið hafi verið mjög áhugavert og vakti þátttakendur til umhugsunar um að baráttunni er alls ekki lokið.
Seinna erindið var svo í lok vikunnar en þá kom ofangreindur Þórhallur til þess að segja starfsmönnum frá samtökunum og svara spurningum. „Það var frábært að hlusta á Þórhall og hvað hann var opinn, áhugasamur og svaraði á mannamáli,“ segir Rebekka Rán. „Þegar ég segi að hann hafi svarað á mannamáli þá meina ég að flestir eru ekki með hlutina 100% á hreinu þegar kemur að baráttu hinseginfólks og margir eru með meðvitaða eða ómeðvitaða fordóma. Það er því mikilvægt að ræða hlutina opið og geta sett sig í spor annarra. Ég er sjálf að læra og get einnig verið mjög kaldhæðin, en kannski er það bara ágætt í þessu hlutverki.“
Mismunun vegna kynhneigðar, kyns eða útlits er ólíðandi
Aðspurð að því hvers vegna þetta málefni sé henni hugleikið svarar Rebekka Rán: „Því tilhugsunin um það að fólki sé mismunað vegna kynhneigðar, kyns eða útlits er ólíðandi. Ég er að vinna hjá stóru fyrirtæki með allskonar fólki þar sem fjölbreytileikinn er mikilvægur, við viljum að öllum líði vel bæði í vinnunni sem og úti í samfélaginu. Fyrir utan það þá er margt af mínu uppáhaldsfólki samkynhneigt.“
Þess má geta að Rebekka Rán fer fyrir svokölluðum Eagle-samtökum hjá Fjarðaáli. Hún útskýrir um hvað þau snúast: „Eagle er stuðningshópur LGBTQ+ fólks hjá Alcoa á heimsvísu. Markmið Eagle er að vinna stöðugt í því að fagna fjölbreytileikanum, styðja við hinsegin fólk og fræða almenning um málefni tengt hinseginleikanum. Við sem partur af Alcoa samsteypunni erum svo með okkar hóp hér hjá Fjarðaáli og eru nú þegar 52 stuðningsaðilar komnir í þann hóp.“
Helgi Jónsson, B- vakt steypuskála, við skreytta borðið.
T.f.v. Rebekka Rán Egilsdóttir, öryggisstjóri og formaður Eagle-samtaka Fjarðaáls, Tor Arne Berg, forstjóri Fjarðaáls og Dagmar Ýr Stefánsdóttir, yfirmaður samskipta og samfélagsmála.
Tölvuteymi Fjarðaáls tók virkan þátt í gleðinni.