11. janúar 2022

Vill vera leiðsögumaður starfsfólksins

ALC_Fjardaalsfrettir_2021_VEF-forsida_1

Einar Þorsteinsson er nýr forstjóri Alcoa Fjarðaáls en hann tekur við af Tor Arne Berg sem hefur sinnt starfinu síðustu tvö ár. Einar er Reykvíkingur en hlakkar til að flytja austur og takast á við nýtt starf. Fjarðaálsfréttir settust niður með nýjum forstjóra til að gefa Austfirðingum innsýn inn í líf hans og störf fram til þessa.

Furðulegt að hefja störf í miðri uppsveiflu COVID-19

Einar hóf störf hjá fyrirtækinu í byrjun desember og fljótlega eftir að hann mætti fyrst á svæðið fjölgaði COVID tilfellum á Austurlandi svo strangar reglur giltu á vinnustaðnum, fólk sem átti þess kost vann að heiman og starfsmenn fóru ekki milli svæða innan fyrirtækisins nema nauðsyn kræfi. „Já, þetta er merkileg tilfinning að koma núna og kynnast nýju fyrirtæki og geta eiginlega ekki hreyft sig og mega helst ekki tala við nokkurn mann nema í gegnum tölvuna,“ segir Einar í upphafi viðtalsins.

Hvaðan kemur þú og hvernig var æskan þín? „Þetta er eitt af því erfiðasta sem ég þarf að tala um vegna þess að ég er þekktur fyrir það að muna mjög lítið úr fortíðinni og sumir myndu segja að ég muni meira úr framtíðinni heldur en úr fortíðinni. En það breytir því ekki að ég er að uppleggi eins mikill Reykvíkingur og er hægt að vera! Stundum hef ég eiginlega skammast mín því ég hef sagt „Ég er bara Reykvíkingur“ en staðreyndin er sú að ég get rakið ættir mínar nokkra ættliði aftur í tímann í Reykjavík sem eru reyndar mjög fáir sem geta gert. Það er ekki mjög langt síðan að Reykjavík varð að því sem hún er í dag. Þannig að ég er bara Reykvíkingur, ólst upp í Vesturbænum og var í barnaskóla þar, enn síðan gerðist ég Breiðhyltingur, Breiðholtsvillingur, eins og sumir kalla mína kynslóð.“ 

Brautryðjandi í framhaldsskóla

Eftir barnaskólagöngu, fyrst í Vesturbænum og svo í Breiðholtinu lá leiðin í framhaldsskóla. Einar var í fyrsta árganginum sem hóf nám við Fjölbrautaskólann í Breiðholti 1979 og segist hafa verið þar brautryðjandi ásamt öðrum „villingum“ úr Breiðholtinu. „Það var verið að byggja skólann, hann var hálfbyggður þegar við byrjuðum. Við komumst upp með það að sprauta úr slökkvislöngunum yfir bekkina og ýmislegt sem ég vil ekki að barnabörnin mín heyri,“ viðurkennir Einar en hann segist þó ekki hafa verið mjög óstýrlátur en vissulega dálítið „aktífur“ eins og það var kallað í þá daga. „En ég sem sagt var í fyrsta árgangi í Fjölbraut í Breiðholti og tók þar bæði stúdentspróf og sveinspróf í vélvirkjun. Við vorum þar tveir félagar, ég og Jóhannes Pálsson vinur minn sem bjó nú lengi vel hér á Reyðarfirði en býr núna í Danmörku. Við vorum tveir fyrstu Íslendingarnir sem fórum í gegnum þetta nýja kerfi og kláruðum bæði bóknám og iðnnám í sama skólanum. Það var dálítið merkilegt.“

En hvað varð til þess að Einar ákvað að taka hvort tveggja bóknám og iðnnám? „Það er dálítið merkileg saga af því þegar ég var ungur, þá ákvað ég það að mennta sig í bóknámi væri alger vitleysa. En það var allt í lagi að verða iðnaðarmaður. Þannig að ég ætlaði að verða vélvirki, sem ég og er, en að taka eitthvert bóknám, það leist mér ekkert á. En svo kemur þetta nýja kerfi sem þá var og við félagarnir fórum saman í vélvirkjunina og gekk mjög vel í bóknáminu og við vorum bara hvattir til að bæta pínulítið við okkur – þá fengjum við stúdentinn svona í bónus. Og maður lét til leiðast. Ég dúxaði á stúdentsprófinu og fékk meira að segja einhver verðlaun og svona. Ég fékk meira að segja að halda ræðu,“ viðurkennir Einar hógvær.

Vinirnir fylgdust að allan námsferilinn

Hvað tók svo við eftir framhaldsskólann? „Við Jói vorum hvattir til þess að halda áfram í tækninám. Þannig að við fórum í tækniskólann sem þá var - ekki núverandi Tækniskóla heldur var sá skóli undanfari þess sem er HR í dag – til að læra tæknifræði og þar þurftum við ekki að taka undirbúningsdeild sem margir iðnaðarmenn gerðu af því að við vorum stúdentar. Stemningin fyrst var „þarna koma Breiðhyltingarnir sem halda að þeir kunni allt.“ Mér leist ekkert á þetta. En niðurstaðan var svo að okkur gekk mjög vel og kláruðum eitt ár í tæknifræði. Þá opnaðist okkur leið til Danmerkur, í háskólann í Álaborg og við fórum þangað og lærðum þar véla-, iðnaðar- og rekstrarvekfræði og kláruðum árið 1985, með meistaragráðu í þessu. Þannig að strákurinn sem ætlaði aldrei að mennta sig endaði sem verkfræðingur með meistaragráðu og hefur starfað sem stjórnandi eftir það.  

Einar og Jói vinur hans fylgdust að í námi alveg frá FB og þeir gerðu saman lokaverkefnið sitt í verkfræði frá Álaborgarháskóla. En fengu þeir aldrei leið á hvor öðrum að vinna svona náið saman öll þessi ár? „Jú jú, en það varði alltaf mjög stutt. Við erum enn bestu vinir í heimi,“ segir Einar.

Einar minnist námstímans í Danmörku með mikilli hlýju. „Þetta var stórkostlegur tími, þessi fjögur ár. Við fluttum út, ég og konan mín. Við kynntumst ung og fluttum út með okkar elsta barn, dóttur okkar, sem var þriggja ára. Ég lenti í því eins og margir sem hafa lært erlendis að upplifa þetta sem besta tíma í lífinu, og svo byrjar maður að lifa lífinu og þá uppgötvar maður að það var allt miklu betra þegar maður var í háskólanum. En að reyna að endurlifa það sama aftur á sama stað, það misheppnast alltaf, því það sem var svo stórkostlegt, það er ekki endilega landið, heldur bundið staðnum sem maður var á í lífinu á þessum tíma. Ég útskrifaðist árið 1985 og enn hugsa ég til þessa tíma sem eins þess besta í lífi mínu.“

Ástin kviknaði í Kerlingarfjöllum

Eiginkona Einars heitir Edda Elísabet Kjerulf og þau hittust fyrst snemma á lífsleiðinni: „Edda man eftir þessu en ekki ég- en það var víst svoleiðis að við hittumst fyrst þegar við vorum 5 og 6 ára – hún er árinu eldri en ég. Þess vegna man hún þetta líklega. Foreldrar okkar þekktust á þessum tíma. En við kynntumst í rauninni ekki fyrr en síðar þegar við vorum bæði að vinna í skíðaskólanum Kerlingarfjöllum. Þar tókum við saman og einn sonur okkar er nefndur eftir einu af fjöllunum þar, þar sem hann varð til. Hann fæddist hins vegar í Danmörku. Hann heitir Sverrir Fannar Einarsson. Fannar eftir Fannborginni.“

Einar og Edda eiga saman fjögur börn. Elín er elst, svo kemur Sverrir, þá Jónas og yngstur er nafni hans Einar Valur. Það eru 15 ár milli elsta og yngsta barns, sú elsta fædd árið 1978 og yngsta árið 1993. Einar á svo fimm barnabörn á aldrinum sex til átján ára. Einar segist vera mikill fjölskyldumaður: „Ég held að við segjum það öll að fjölskyldan sé mikilvægust og ég held að með réttu þá sé það svoleiðis. Ég er ekki alltaf viss um að fjölskyldan mín hafi upplifað það þannig, því að þegar ég var ungur, kominn með börn, skuldum vafinn eftir langtíma háskólanám þá vann ég alveg rosalega mikið og var lítið heima. Það var svona andinn á þessum tíma. En það sem við höfum alltaf gert er að ferðast mikið um Ísland og sérstaklega hálendi Íslands með börnin. Árum saman fórum við hverja einustu helgi eitthvað hvort sem það var vetur, sumar, vor eða haust. Skíðamennska, það er að segja að vinna við skíði og skíðamennsku var stór hluti af okkar lífi líka. Við unnum mikið í gegnum tíðina hjónin, bæði í Kerlingafjöllum og Bláfjöllum.“ Einar á ekki langt að sækja skíðaáhugann en faðir hans var kallaður Bláfjallakóngurinn en hann rak skíðasvæðið í Bláfjöllum í fjörutíu ár.

Eiginkona Einars ber ættarnafnið Kjerúlf sem er vel þekkt á Austurlandi og á ættir að rekja hingað. „Hún er komin af Kjerúlfunum sem að komu frá Danmnörku og „námu land“ á Íslandi hér fyrir austan og afi hennar ólst upp hér uppi á Héraði,“ segir Einar. „Hann flutti síðan í Reykholti í Borgarfirði og bjó þar til æviloka.“ En Einar segir að hún sé spennt að flytja austur og rækta frændgarðinn hér.

„Það er til ráð við öllu nema ráðaleysi“

Þegar Einar er spurður út í helstu áskoranir sem hafa mætt honum á lífsleiðinni segist hann snemma á lífsleiðinni hafa lært það að afa sínum að mæta þeim af æðruleysi. Afi hans kenndi honum þá fleygu setningu að það væri til ráð við öllu nema ráðaleysi. Því segir Einar að ef það er til lausn á vandamáli – er það þá í raun og veru vandamál? Hann segir að áskoranir hafi vissulega verið nokkrar á lífsleiðinni en honum hafi samt aldrei fundist lífið vera erfitt: „Ætli það stærsta sem ég hef þurft að takast á við í mínu lífi hafi ekki verið þegar ég greindist með blöðruhálskirtilskrabbamein fyrir tveimur árum síðan eins og margir menn á mínum aldri lenda í.“

Einar segir að sem betur fer hafi þetta krabbamein uppgötvast vegna þess að það leiddi til þess að í honum fannst annað krabbamein sem var duldara og var í nýra. Hann tókst því á við tvö krabbamein og segist hafa endurmetið líf sitt eftir þessa reynslu sem vissulega tók á. „Þetta leiddi til þess að ég fór að velta fyrir mér hvað ég vildi fá út úr lífinu. Ég stóð á tímamótum í starfi þar sem ég gat ekki haldið áfram að sinna starfi á heimsvísu fyrir Elkem meðan ég stóð í krabbameinsmeðferðunum.

Einar hóf störf hjá Elkem árið 2008 og var forstjóri hjá fyrirtækinu í sex ár en fór þá að starfa fyrir félagið á alþjóðlegum vettvangi. Hann bjó í Kína í þrjú ár og var svo að vinna fyrir fyrirtækið í Frakklandi. Einmitt þegar Einar stóð á tímamótum og var að takast á við krabbameinsmeðferð var hann beðinn um að taka aftur að sér verksmiðjustjórastöðuna hjá fyrirtækinu hér á Íslandi tímabundið. „En ég fann að ég hafði ekki mikla orku og fór að velta fyrir mér tilgangi lífsins. Ég uppgötvaði að mig langaði að gera eitthvað fleira en að vinna og skellti mér aftur á skólabekk, fór í Leiðsögumannaskólann en það kallaði mikið á mig eftir að hafa verið búinn að ferðast mikið um landið árum saman með vini og vandamenn.“

Einar lauk náminu síðasta sumar og var farinn að vinna við það að fara með ferðamenn í ferðir um landið þegar aftur varð kúvending í lífi hans.

Komið víða við í íslensku atvinnulífi

Einar segir að það hafi verið einhver löngun sem togaði hressilega í hann þegar upp kom sú hugmynd að hann tæki við að stýra Fjarðaáli. Hann hélt að hann hefði sett forstjóraskóna á hilluna en fann að það höfðaði sterkt til hans að koma og takast á við verkefnin sem fylgja því að leiða jafn stórt fyrirtæki og Fjarðaál er. „Ég er að vona að ég geti nýtt eitthvað af þekkingunni sem ég fékk í Leiðsögumannaskólanum inn í forstjórastarfið. Ég vil gjarnan líta svo á að ég verði frekar leiðsögumaður í fyrirtækinu en stjóri.“

Einar fékkst við eitt og annað áður en hann hóf störf í stóriðjunni. „Þegar ég kláraði námið í verkfærðinni byrjaði ég hjá stofnun sem hét Landssamband iðnaðarmanna og átti að vera ráðgjafi iðnaðarmanna sem voru á aldrinum milli fimmtugs og sjötugs. Það kom í ljós að 26 ára gamall verkfræðingur sem taldi sig vita eitt og annað – honum gekk ekkert mjög vel að ná sambandi við þessa gömlu jálka,“ rifjar Einar upp kíminn.

Einar fór yfir til Marel og svo til Platsprents þar sem hann var verksmiðju- og framleiðslustjóri. Um tíma var Einar framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá Samskipum en stofnaði svo Íslandspóst út úr Póst og síma og var fyrsti forstjóri þess fyrirtækis. Hann var starfandi hjá prentsmiðjunni Odda þegar starf forstjóra Íslenska Járnblendifélagsins, sem í dag heitir Elkem Ísland,  var auglýst og það heillaði hann. „Ég fékk starfið en ástæðan var sú að Elkem var að leita að utanaðkomandi stjórnanda til að takast á við áskoranir sem fyrirtækið stóð frammi fyrir á þeim tíma. Ég vissi nánast ekki hvað stóriðja var þegar ég byrjaði en ég get stoltur sagt að þegar ég yfirgaf skipið var fyrirtækið komið á góðan stað.“

Hálendið fyrir austan heillar

Einari líst vel á að vera að flytja austur. Hann hefur bæði búið í Sjanghai í Kína og í Lyon í Frakklandi, er Reykvíkingur í grunnin og finnst kominn tími á að gerast landsbyggðarmaður. „Mér finnst svæðið hérna fyrir austan stórkostlegt. Hálendið hérna í kringum okkur heillar mig gríðarlega og ég hef haft of lítinn tíma til að sinna því áhugamáli upp á síðkastið. Þá finnst mér frábært að hafa skíðasvæði svona nálægt mér og horfi með löngunaraugum á ljósin hérna upp í Oddskarði en ég hef náttúruleg verið í skíðunum alla ævi.“

En Einar á sér fleiri áhugamál og eitt þeirra er mótórhjól. Hvers vegna skyldu mótórhjól heilla Einar svo mikið? „Mótorhjólin gefa mér frelsi. Ég get að mörgu leiti líkt því við að vera að vinna í stóriðju þar sem undirliggjandi áhætta er töluvert mikil. Maður þarf að hegða sér af skynsemi, hafa allar varnir í lagi, hafa hugsunina í lagi og þjálfun í lagi en þá fær maður í staðinn ákveðið frelsi. Ég er búinn að vera í mótorhjólum síðan ég var unglingur. En núna á ég ekki nema fjögur mótorhjól,“ segir Einar og gæti nú mörgum þótt það nokkur fjöldi en ekki á hans mælikvarða.

Varðeldur í eyðimörkinni í Mongólíu

Einar tengir mótorhjólasportið við ferðamennsku enda hefur hann ferðast nokkuð víða á slíkum gripum. „Ég hef farið hringinn segja sumir – margir halda að það sé hringinn í kringum Ísland, sem ég hef reyndar gert margoft – en þetta var stærri hringur eða umhverfis hnöttinn. Ég og Sverrir bróðir minn lögðum upp í ferðalag árið 2007 frá Reykjavík og héldum í austur. Tókum ferjuna frá Seyðisfirði og héldum svo áfram í austur þangað til við komum aftur til Íslands. Þannig hef ég fært sönnur á að jörðin er hnöttótt!“

Ferðalagið tók þá bræður þrjá mánuði. Aðspurður hvort þeir hafi lent í hremmingum á þessu ferðalagi segir Einar: „Við lentum í fullt af skemmtilegum uppákomum en við gátum leyst allt sem kom upp á. Þetta var allt í senn spennandi, áhugavert, skemmtilegt, óhugnanlegt, erfitt og allt þar á milli.“ Einar segir að landið sem stóð uppúr eftir túrinn hafi verið Mongolía. „Það var vegna þess að þegar við komum inn í Mongólí þá fannst okkur við vera að koma heim. Landslagið, umhverfið, lítið sem ekkert af fólki og vegslóðar. Okkur leið eins og við værum á hálendi Íslands. Upplifunin að sitja við varðeld í eyðimörk í Mongólíu – hún var reyndar ekki lík Íslandi enda ekki svartur sandur – og velta fyrir sér að ef við vildum nú allt í einu fara heim á þessu augnabliki þá myndi það taka okkur þrjár vikur óháð því hvaða ferðaleið sem við veldum. Þarna sátum við bræður einir í heiminum bara með gervihnattasíma til að tengja okkur við umheiminn.“

Leggur mikið upp úr frumkvæði

Einar er að taka við starfi forstjóra Fjarðaáls og því ekki úr vegi að spyrja á hvað hann leggi áherslu sem stjórnandi og hvernig nýja starfið leggist í hann? „Það sem ég legg áherslu á í starfi mínu er að vera leiðtogi eða leiðsögumaður starfsmanna fyrirtækisins. Ég legg áherslu á samstarf, samheldni og að allir viti hvert er verið að stefna til að við náum árangri í því sem við erum að gera. Við þurfum að hafa forgangsröðunina á hreinu, skilja hvað skiptir mestu máli.“ Einari þykir miður að geta ekki verið búinn að fara meira um verksmiðjuna síðan hann kom til starfa en þar hefur COVID sett strik í reikninginn.

Þá á Einar einnig eftir að fara í gegnum nýliðafræðslu Fjarðaáls en hann tekur námskeið líkt og allir nýir starfsmenn í janúar. „Ég hefði getað sagt að ég er með mikla reynslu úr stóriðjunni og þarf ekki á þessum námskeiðum að halda en raunin er sú að ég þekki ekki þennan vinnustað og ég þarf að hafa grunninn minn í lagi eins og allir aðrir starfsmenn Fjarðaáls.“

Einar segir að eitt besta hollráð sem hann geti gefið starfsmönnum sé þetta: „Besta leiðin til að stjórna því sem þú ert að gera er að hafa frumkvæði í þeim verkum sem þú ert að vinna. Ekki gera neitt sem er óeðlilegt en sýndu frumkvæði og komdu hugmyndum þínum á framfæri því þá getur þú haft óendanleg áhrif.“

Einar setur markið hátt og stefnir á að Fjarðaál verði innan skamms tíma besta verksmiðjan í Alcoa fjölskyldunni og starfsmenn Fjarðaáls hlakka sannarlega til að taka þátt í þeirri vegferð með honum.