04. febrúar 2022
Markmið þurfa að vera raunhæf og sértæk
Sigrún Birna Björnsdóttir, fræðslustjóri hjá Alcoa Fjarðaáli hefur unnið með starfsmönnum fyrirtækisins að markmiðasetningu á síðastliðnum tveimur árum og hefur það starf skilað miklum árangri, bæði fyrir starfsmennina og fyrirtækið. Það hefur vakið athygli að starfsmenn hafa getað nýtt þessa þekkingu bæði í vinnunni og í sínu einkalífi. Við tókum Sigrúnu Birnu tali til þess að fræðast meira um markmiðasetningu.
Kennari í draumastarfi
Sigrún Birna er Reyðfirðingur en hún fluttist til höfuðborgarsvæðisins til þess að læra kennslufræði á menntavísindasviði H.Í. Þegar Alcoa Fjarðaál hóf rekstur fékk hún starf í mannauðsteymi svo hún flutti aftur á heimaslóðir og hóf störf í júní 2011. Hún kveðst vera mjög ánægð í starfi sínu, sem er fjölbreytt og bjóði upp á ýmsar áskoranir. Sérstaklega hefur hún gaman að því að kenna. Nú er hún sjálf í meistaranámi í mannauðsstjórnun hjá H.Í. með fram starfinu hjá Fjarðaáli.
Aðspurð að því hvernig kennslan í markmiðasetningu kom til, segir Sigrún Birna að hún hafi fengið verkefni í hendurnar frá móðurfyrirtæki Alcoa árið 2012 að kenna svokallaða „fjögur E og P“ markmiðasetningu. Það fólst í því að fastlaunafólki ætti að setja sér markmið á hverju ári og fylgja því eftir. „Þetta var alveg glænýtt efni sem ég fékk í hendurnar og fólk var að koma til mín og biðja mig um að hjálpa sér að setja sér markmið. Og þegar ég fór að setjast niður með fólki áttaði ég mig á því að það er ekki það sama markmið og markmið."
Um hvað snýst markmiðasetningin? „Í stuttu máli myndi ég segja að markmiðasetning snúist um það að vinna að einhverju markmiði sem þig langar til þess að ná og gera það með skynsömum hætti. Þú vilt komast að einhverju marki, komast lengra og þróa eitthvað og markmiðasetningin styður mann í þeirri vegferð,“ segir Sigrún Birna.
Markmið þurfa að vera raunhæf
Hvað er mikilvægast að hafa í huga þegar fólk byrjar að setja sér markmið? „ Númer eitt: það mikilvægasta er að hafa markmiðið raunhæft. Það er svo ótrúlega algengt að við setjum okkur ofboðslega metnaðarfull markmið, kannski mörg í einu og erum svo gapandi hissa að við náðum þeim ekki,“ segir Sigrún Birna. Hún nefnir sem dæmi um óraunhæft að einhver ætli „að koma sér í betra form“ sem hún segir að sé mjög teygjanlegt markmið. „Hvað þýðir það? Og að hvaða leyti? Þarna þyrfti maður að þrengja niður. Segjum að þú hafir ekki hreyft þig neitt. Þú hefur ekki farið í ræktina í eitt ár. Svo ætlar þú bara að taka þetta með trompi og kýla á þetta. Þú ákveður að fara í ræktina á hverjum einasta degi.“ Hún segir að ef einhver kæmi til hennar og segðist ætla í ræktina á hverjum einasta degi, þá myndi hún spyrja viðkomandi hvað hann eða hún hreyfi sig oft á mánuði eins og stendur. Og svarið væri kannski „aldrei.“ Þá myndi hún stinga upp á að byrja á því að hreyfa sig aðeins einu sinni í viku, eða jafnvel 2-3 sinnum í viku. Hún segist vera hrifin af því að setja sér lítil markmið: „Maður nær aldrei að standa við óraunhæf markmið, en það er hægt að endurskoða lítil markmið eftir smá tíma. Hvernig borðar maður fíl? Maður borðar einn og einn bita í einu.“
SMART aðferðafræði fyrir markmiðasetningu
Aðspurð að því hvort sama aðferðafræðin liggi að baki persónulegum markmiðum og svo vinnumarkmiðum segir Sigrún Birna: „Það er oft talað um SMART markmiðasetningu. Hún á við bæði um vinnumarkmið og persónuleg markmið. SMART stendur fyrir að þau séu sértæk - að koma sér í betra form er náttúrulega ekki sértækt. Að bæta framleiðsluna ekki sértækt. Hvað ætla ég nákvæmlega að gera? M stendur fyrir mælanlegt. Hjá Fjarðaáli erum við með mælikvarða en fyrir okkur persónulega þá búum við til mælikvarða. A er fyrir aðgerðamiðað. Það er miðjan í þessu, að við séum með aðgerðir sem styðja við markmiðið. Hvað ætlum við að gera? R er raunhæft eins og við ræddum áðan. T er tímasett, það er að setja sér einhvern tímaramma.“
„Það nýjasta er í þessum málum að segja, á ensku BE SMART,“ segir Sigrún Birna. B stendur fyrir það sem snýr að mér og skiptir mig máli og svo er E, fyrir emotions á ensku, það eru tilfinningar. Að hreyfa mig meira, til dæmis, hvaða tilfinningu myndi það vekja hjá mér? Hvernig mun mér líða þegar ég næ þessu markmiði? Maður þarf að horfa meira inn á við, myndi ég segja, þegar kemur að persónulegum markmiðum og virkilega velta því fyrir sér: Vil ég ná þessu markmiði? Fyrir mín gildi eða vegna þess að ég vilji herma eftir einhverju liði á Facebook eða Instagram og held að ég þurfi að ná þessu af því að allir eru að gera þetta“.
Stuðningur frá vinum og teymi
Er ekki mismunandi hvað drífur einn og einn? Þurfa sumir ekki einhverja gulrót? „Það sem við eigum öll sameiginlegt er að við þurfum einhvers konar stuðning,“ssegir Sigrún Birna. „Stuðningurinn getur falist í því að vera hluti af æfingahópi, einhverri grúppu á Facebook eða hafa einhvern með sér í hlutunum, einhvern svona „sponsor“. Vegna þess að þegar að því kemur að maður missir trúna á sjálfan sig og er alveg að renna á rassgatið með hlutina, þá verður maður að hafa einhvern til þess að grípa í. Það held ég að við eigum öll sameiginlegt, eða langflest, einhvern til þess að halla okkur að þegar í harðbakkann slær.“
Er þetta ekki líka markvert varðandi vinnutengd markmið? „Jú, það er mikilvægt að hafa einhvern félaga sem þú getur leitað til þegar þér finnst þú ekki vera að standa þig varðandi vinnumarkmið. Til dæmis það sem ég elska við vinnuna er teymið mitt. Það er ekki að ástæðulausu að teymisvinna er almennt talin virka best. Við náum þannig að draga fram hið besta í hvert öðru. Að styðja við veikleikana og efla styrkleikana.“
Þrautseigja og þolinmæði
Hvað getur staðið í vegi fyrir manni varðandi markmið? „Eins og ég talaði um áðan þarf markmið að vera raunhæft,“ segir Sigrún Birna. „Síðan langar mig að bæta við óraunhæfum samanburði. Við erum alltof oft að bera okkur saman við fólk á kolröngum forsendum. Önnur hindrun er að við erum of óþreyjufull. Þrautseigja og þolinmæði eru mikilvæg atriði. Sérstaklega vegna þess að við förum stundum út af sporinu. Árangur er ekki eitthvert línulegt ferli – að byrja neðst og svo ná árangri í beinni línu upp á við. Þetta er í langflestum tilfellum frekar eins og hjartalínurit. Segjum að við ætlum að tileinka okkur meiri hreyfingu og í tvær vikur er allt frábært. Svo erum við heila viku í ruglinu. Og hvað ætlum við þá að gera? Ætlum við að hætta að hreyfa okkur af því að ein vika var ekki í lagi? Fólk flaskar oft á þessu: það gefur markmið upp á bátinn og segir sér að það sé ómögulegt.“
Að skera markmið niður í viðráðanlega búta
Hvað getur fólk gert til þess að snúa taflinu sér í vil? „Ef fólk upplifir að það sé ekki að ná árangri, myndi ég ráðleggja því að setjast niður og skrifa markmiðið á miða fyrir framan sig. Horfa svo á markmiðið og spyrja sig: hvað var ég með í huga þegar ég setti mér þetta markmið? Mig langar að grípa til eins „Alcoa-tóls“ sem er „fimm sinnum af hverju.“ Segjum sem svo að einhver hafi einsett sér að hætta að borða sykur sem er mjög dæmigert fyrir daginn í dag. Af hverju langar þig til þess að hætta að borða sykur? Hann er svo óhollur. Af hverju er það svona óhollt fyrir þig? Er þetta það eina sem þú borðar? Nei, ég borða aðra hluti. Svona veltir maður fyrir sér og þá er betra að endurskoða markmiðið. Í stað þess að borða ekki sykur í mánuð, af hverju ekki að sleppa sykri í einn dag á viku? Breyttu bara markmiðinu og haltu svo áfram. Ekki hætta!“
Fyrsta sokkaparið
Geturðu gefið okkur dæmi um markmiðasetningu hjá þér, persónulega? Er eitthvert markmið sem þú settir þér og ert virkilega ánægð með? Sigrún Birna hlær: „Ég er alltaf að setja mér markmið, ég er búin að gera það í mörg ár. Ég set mér mjög fjölbreytt markmið. Sem dæmi um markmið sem tókst vel, þá settist ég niður þann 1. janúar og setti mér nokkur markmið fyrir mánuðinn. Eitt af þeim var að prjóna sokka, í fyrsta skipti á ævinni. Í gærkvöldi kláraði ég fyrsta sokkaparið. Ég gat ekki annað en hlegið, þar sem sokkarnir áttu að vera fyrir 6-12 mánaða barn. Annar sokkurinn er fyrir þann aldur en hinn er á fjögurra ára barn! Markmiðið var ekki að þeir ættu að vera jafnstórir – en ég náði því! Svona markmið eru líka mikilvæg, ekki bara að ætla í maraþon.“
Er eitthvert heillaráð sem Sigrún Birna vill gefa í lokin? „Ég ráðlegg öllum að skoða efni um hugarheilsu á netinu sem kallast The Healthy Mind Platter, og það er alger snilld. Vegna þess að við þurfum ekki bara að hugsa um líkamann, heldur einnig um andlega heilsu, eins og að leyfa sér að kúpla sig út annað slagið, sem við gerum alltof lítið af – til dæmis að horfa bara á Netflix án þess að fá samviskubit!“