11. maí 2022
Konur í verk- og tæknifræði hjá Fjarðaáli
Í gegnum tíðina hefur talsvert hallað á konur þegar kemur að störfum í verk- og tæknifræðitengdum greinum. Hjá Fjarðaáli starfa flottar fyrirmyndir kvenna í þessum geira og við fengum nokkrar þeirra í stutt spjall. Við hvetjum ungar konur sem eru að velta fyrir sér náms- og starfsvali að kynna sér greinar á sviði verk- og tæknifræði en tækifærin á þessum sviðum fara bara vaxandi.
Erna Guðrún Þorsteinsdóttir byrjaði hjá Fjarðaáli sem framleiðslustarfsmaður í sumarstarfi árið 2014. Svo vann hún áfram með skóla en byrjaði sem verkfræðingur í álframleiðslu árið 2019 og hefur verið það síðan. Helsta verkefnið sem hún er að vinna að núna er stór viðgerð á leiðarakerfi Fjarðaáls. Erna er með BSc gráðu í vélaverkfræði við Háskóla Íslands og svo meistaragráðu í efna- og framleiðsluverkfræði (Materials and Manufacturing Engineering) frá Danmarks Tekniske Universitet, DTU, sem er skammt frá Kaupmannahöfn.
Hvers vegna valdi hún þetta nám? „Ég byrjaði í íslensku en saknaði raunvísindagreina. Því ákvað ég að prófa að fara í verkfræði og fannst það gaman.“ Hún segir það besta við að vinna hjá Fjarðaáli séu áhugaverð verkefni og góðir samstarfsfélagar.
Hekla Kolka Hlöðversdóttir er framleiðslusérfræðingur í tækniteymi steypuskála. Hennar helstu verkefni snúa að tæknimálum á HDC steypuvélinni í steypuskála Fjarðaáls. Hekla er með BSc gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands og MSc í rekstrar- og nýsköpunarverkfræði við Álaborgarháskóla í Danmörku. Hún hefur starfað hjá Alcoa Fjarðaáli í fimm ár, en hún byrjaði sem sumarstarfsmaður í áreiðanleikateymi. Síðar var hún framleiðslusérfræðingur í skautsmiðjunni og loks í steypuskála þar sem hún er núna. Þar sé hún um breytingaverkefni, umbætur, framleiðslumælikvarða, vinnulýsingar, framtíðaráætlanir og fleira.
Hvers vegna valdi hún þetta nám? „Ég valdi verkfræði því ég vildi hagnýtt og krefjandi nám sem myndi bjóða upp á fjölbreytta möguleika í framtíðinni. Hef alltaf hallast meira að raungreinum og áhugasviðið benti til náms í heilbrigðisgeiranum eða verkfræði. Ég ákvað að velja frekar verkfræðina og hafa möguleikann á því seinna að þróast í átt að heilbrigðisverkfræði, sem ég hef þó ekki gert ennþá.“ Hún segir að það besta við að vinna hjá Alcoa Fjarðaáli séu fjölbreytt verkefni og nýjar áskoranir á hverjum degi.
Freyja Viðarsdóttir hefur unnið hjá Fjarðaáli í tvö og hálft ár. Hún er núna framleiðslusérfræðingur í tækniteymi kerskála þar sem hún er m.a. ábyrg fyrir því að stýra hitanum í skálanum og passa upp á raflausnarhæð og sér einnig um stýringu á þekjustöðvum kerskálans. Freyja lærði efnaverkfræði við Háskóla Íslands og segir um það val: „Efnafræði var alltaf uppáhalds fagið mitt í skóla og að vinna í teymi og stýra verkefnum er eitthvað sem ég hef alltaf haft gaman að.“
Aðspurð hvað sé það besta við að vinna hjá Alcoa Fjarðaáli, segir hún: „Fjölbreyttur hópur fólks sem stendur saman í því að leysa vandamálin sem upp koma og líka að fá að axla ábyrgð ef þú leitast eftir því.“
Valgerður Yngvadóttir hefur unnið í 15 ár hjá Fjarðaáli og gegnir nú stöðu framleiðslusérfræðings í tækniteymi kerskálans en hún hefur einnig starfað sem áreiðanleikasérfræðingur. Helstu verkefni hennar í dag snúast um svokallað QLC stýrikerfi, rafgreiningarvinnu og rekstur kera. Hún er menntaður rafmagnstæknifræðingur frá Ingeniorhøjskolen Odense Teknikum í Danmörku. Hvers vegna valdi hún það nám? „Mér finnst tækni mjög spennandi og er mjög forvitin um hvernig hlutirnir virka. Þess vegna valdi ég rafmagnstæknifræði í lágspennu.“
Aðspurð um hvað sé það besta við að vinna hjá Alcoa Fjarðaáli, segir hún: „Að takast á við áskoranirnar sem mæta mér á hverjum degi og að sjálfsögðu allt ólíka og skemmtilega fólkið sem ég hitti.“