18. febrúar 2024
Fjarðaálsmótið á skíðum haldið í tíunda sinn
Yngsta skíðafólkið á Austurlandi atti kappi í Oddsskarði á fyrsta hluta Fjarðaálsmótsins á skíðum í febrúar. Það var fallegur dagur þar sem góðar aðstæður og mikil skíðagleði fóru saman í brekkunum og óhætt að segja að á Austurlandi sé efnilegt skíðafólk á öllum aldri.
„Mótið gekk mjög vel“ segir Eðvald Garðsson, formaður Skíðafélags Fjarðabyggðar. „Aðstæðurnar voru alveg eins og best verður á kosið, veðrið lék við okkur og færið var frábært.“ Keppendurnir, sem voru á aldrinum 5-11 ára, kepptu í alpagreinunum svigi og stórsvigi en Eðvald segir mikið lagt upp úr því að yngstu keppendurnir fái jákvæða reynslu af því að keppa. „Sjö ára og yngri keppa bara í stórsvigi en þau allra yngstu fá oft að renna sér bara niður og uppskera klapp fyrir.“
Alcoa Fjarðaál er styrktaraðili mótsins, sem er samstarfsverkefni skíðafélaganna á Austurlandi, Skíðafélags Fjarðabyggðar (SFF) og Skíðafélagsins í Stafdal (SKÍS). Mótið er haldið til skiptis í Stafdal, skíðasvæði Múlaþings og í Oddsskarði, skíðasvæði Fjarðabyggðar.
Fjarðaálsmótið fór fyrst fram árið 2012 en sökum heimsfaraldurs féll mótahald niður í tvö ár, sem gerir mótið í ár það tíunda í röðinni.
„Samstarfið milli skíðafélaganna er virkt og gott og allur undirbúningur og framkvæmd á Fjarðaálsmótinu hefur gengið rosalega vel í gegnum tíðina. Það er mikilvægt að við séum með mót eins og þetta hérna fyrir austan, það er gott upp á samstarf skíðafélaganna en aðallega svo að iðkendurnir okkar öðlist keppnisreynslu og fái að spreyta sig í brekkunum sem þau æfa reglulega í,“ segir Eðvald.
Síðar í febrúarmánuði fer fram seinni hluti mótsins þegar skíðafólk sem náð hefur 12 ára aldri keppir í svigi og stórsvigi.
„Þetta eru í heildina um 100 keppendur á mótinu, allt frá 5 ára og upp í 17 ára,“ segir Eðvald en hann finnur fyrir auknum skíðaáhuga í Oddsskarði. „Það er töluverð auking á iðkendum í vetur miðað við það sem verið hefur og það er alltaf gaman að sjá. Við erum líka að upplifa aukinn fjölda af fólki í fjallinu, sem kemur til þess að skíða í frístundum.“
Eðvald telur sérstaklega jákvætt viðmót staðarhaldara og gott árferði geta verið hluta af ástæðum þessarar aukningar. „Maður þorir nú varla að segja það en við erum búin að vera rosalega heppin með veður og snjóalög í vetur, við höfum fengið mikinn og góðan snjó og veðrið sannarlega verið okkur hliðholt.“ Hann segist vona að ekki verði breyting þar á, þrátt fyrir að hann brjóti óskrifaða reglu með því að tala um góðviðrið. „Það gæti komið ótíð með rigningu og leiðindum, fyrst ég segi þetta hér, en við krossum fingur.“