18. apríl 2024
Alcoa Fjarðaál á Tæknidegi fjölskyldunnar
Árlegur tæknidagur fjölskyldunnar var haldinn laugardaginn 13. apríl í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað. Dagskráin var fjölbreytt að vanda og fjöldi fólks lagði leið sína í skólann þar sem Alcoa Fjarðaál kynnti starfsemi sína ásamt fjölda farartækja og stofnana á Austurlandi. Starfsfólk Fjarðaáls sagði gestum frá framleiðsluferlinu og sýndu afurðir fyrirtækisins og viðskiptavina þess. Ástandsgreiningarteymið leyfði gestum að prófa tæki sem notuð eru til að fylgjast með ástandi búnaðar í álverinu auk þess sem nýjasta farartækið í álverinu var flutt á staðinn og haft til sýnis.
Kristján Jónsson kennir áhugasömum gesti að nota tæki sem greinir loftleka. Sérhæft ástandsgreiningarteymi Alcoa Fjarðaáls er með ýmiss konar tæki til að greina ástand búnaðar og finna bilanir áður en þær valda stöðvun eða tjóni. Í básnum voru líka titringsmælir, hátíðnimælir og hitamyndavél.
Hlöðver Hlöðversson fræðir gesti um víraframleiðslu Alcoa Fjarðaáls. Árlega framleiðir fyrirtækið um 80 þúsund tonn af álvírum sem að stærstum hluta eru notaðir í leiðara í rafmagnsköplum. Meðal sýningargripa í básnum var bútur úr háspennukapli sem lagður var í jörðu á Vopnafirði. Í kaplinum eru álvírar frá Fjarðaáli og slíkir kaplar hafa verið lagðir í jörðu víða á Austurlandi undanfarin ár.
Forskautafræsarinn kominn til Neskaupstaðar þar sem hann var til sýnis á Tæknidegi fjölskyldunnar. Fræsarinn var sérsmíðaður fyrir Fjarðaál hjá norska fyrirtækinu SMV og kostaði á við góða íbúð á höfuðborgarsvæðinu. Í hverju rafgreiningarkeri hjá Fjarðaáli eru 40 kolefnisforskaut sem taka þátt í efnahvarfinu í álframleiðslunni. Forskautin eiga það til aflagast og valda óróleika í keri. Hingað til hafa slík skaut verið fjarlægð og ný sett í staðinn, en með fræsaranum er hægt að laga skautin á nokkrum mínútum og nýta þau áfram til fulls.