25. júní 2024

Við konur megum ekki hugsa svona


Áhrifarík erindi og falleg tónlist á kvennakaffi Alcoa

Um 100 konur komu saman þegar Alcoa Fjarðaál bauð til árlegs kvennakaffis í tilefni af kvennréttindadeginum 19. júní. Kvennakaffið hefur verið órjúfanleg hefð frá upphafi reksturs Fjarðáls, þó með hléi í samkomutakmörkunum. Með viðburðinum vill Alcoa undirstrika skuldbindingu sína til þess að vinna að jafnrétti í hvívetna.

Sterk Austfirsk tenging í dagskránni
Dagskráin saman stóð af hugvekjum tveggja kvenna úr atvinnulífinu á Austurlandi og fallegri austfirskri tónlist eftir Ínu Berglindi Guðmundsdóttur sem hún flutti sjálf af sinni alkunnu snilld. Heiða Ingimarsdóttir, formaður félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) á Austurlandi, ræddi í sínu erindi um mikilvægi þess að konur í fjórðungnum snúi bökum saman, lyfti hver annarri upp og spyrji spurninga þegar orðræða eða aðstæður halli á hlut kvenna. 


Fyrsta konan og yngst allra 
Svanhildur Björg Pétursdóttir, framkvæmdastjóri viðhalds, áreiðanleika og upplýsingatækni hjá Alcoa Fjarðaáli, sagði í einlægu erindi frá sinni sögu og stiklaði á stóru um þær áskoranir sem hún hefur mætt sem ung kona í karlægum geira véla og iðnaðar.

“Mjög ungri var mér kennt að ekkert gæti stöðvað mig en ég trúði því virkilega ekki, ég efaðist alltaf,” sagði Svanhildur sem er yngsti framkvæmdastjóri Alcoa frá upphafi og jafnframt fyrsta konan til þess að gegna stöðu framkvæmdastjóra viðhalds. 

Svanhildur, sem er 33 ára Mývetningur, lærði vélstjórn í Verkmenntaskólanum á Akureyri en það kom henni verulega á óvart þegar fyrsti skóladagurinn rann upp, að hún reyndist vera eina stelpan í stofunni. Hún sagði jafnframt frá því hvernig feimnin sem hún glímdi við hefði haldið aftur af henni þrátt fyrir að hún hafi skarað fram úr í náminu. “Ég hugsaði þetta allt upp á nýtt þegar samnemandi minn tók mig á tal eftir enn eitt hópaverkefnið og sagðist ekki lengur geta tekið heiðurinn fyrir mínar úrlausnir og svör, ég yrði að geta talað fyrir mig sjálf.”  

Sór þess eið að fara aldrei á sjó 
Hluti af því að ljúka námi í vélstjórn er námssamningur sem krefst þess að vélstjórnarnemar ljúki ákveðið mörgum klukkustundum í vélstjórnartengdri vinnu. Svanhildur hafði fengið verðmæta reynslu á námssamningi meðfram fyrstu tveimur námsárunum fyrir norðan og ákvað því að sækja um sem vélstjóri á sjó. 

“Ég fékk draumastarfið fyrir nema, til þess að geta lært sem mest. Ég var ráðin sem annar vélstjóri, en þar sem ég hafði ekki enn lokið skólanum þurfti útgerðin að sækja um undanþágu fyrir mig. Mér til mikilla ama þá var undanþágan ekki samþykkt. Ég fékk seinna að heyra að vélstjórnarnemi sem var ári á eftir mér í náminu fékk undanþáguna og tók plássið mitt. Sá vélstjórnarnemi var karlkyns. Þarna sór ég þess eið við sjálfa mig að ég myndi aldrei fara á sjó,” sagði Svanhildur sem útskrifaðist ári síðar með næsthæstu einkunn allra í vélstjórnargreinum, sem og rafvirki og stúdent.

Seinna hélt hún áfram að mennta sig. “Það er mikil vinna að sækja sér menntun, en mér tókst að klára véliðnfræðinám og viðskiptafræði með áherslu á stjórnun, samhliða því að eignast tvö börn, vera í fæðingarorlofi og fullri vinnu. 


Glatað að hafa þurft að treysta á heppnina 
Svanhildur rak dæmi um áreitni og ofbeldi sem hún hefur orðið fyrir við vinnu sína, áður en hún kom til Alcoa.

“Ég setti mig í hlutverk, lék harðan nagla og lét eins og þetta fengi ekkert á mig. Það virkaði þangað til þetta gekk fram af mér. Það er alveg glatað að vegna þess að ég er kvenkyns og hef áhuga á vélum og iðnaði að þá hafi þær starfsaðstæður sem mér hafa boðist verið þannig að ég hef oftar en ég get talið lent í aðstæðum þar sem mér er ógnað, ég er hrædd og hef þurft að treysta á heppnina eða annað fólk til þess að komast úr aðstæðunum,” sagði Svanhildur.

Svanhildur hefur þó síður en svo látið áskoranirnar stöðva sig og hefur náð langt í starfi. Hún segir þó efasemdirnar ennþá skjóta upp kollinum “Hvað hef ég gert til að verðskulda þetta mikilvæga starf? Enn í dag poppa þessar spurningar upp í hausnum á mér en við konur megum ekki hugsa svona. Við erum alveg jafn færar og aðrir til að sinna svona störfum.” 

Karlar tilbúnir að ryðja leiðina með okkur 
“Þó við á Íslandi eigum að heita best í heimi þegar kemur að kvenréttindum þá gefur upprunaland engin fyrirheit þegar kemur að áreitni, það finnast skemmd epli alls staðar,” sagði Svanhildur en bætti jafnframt við að hún fyndi fyrir miklum stuðningi frá fólkinu í kringum sig; samstarfsfólki og fjölskyldu.

“Konur hafa rutt leiðina fyrir kynsystur sínar á svo mörgum sviðum í samfélaginu en það er mín upplifun úr iðnaðargeiranum að karlar eru ekki síður tilbúnir að ryðja brautina með okkur.” 

Svanhildur lauk máli sínu á hvatningar orðunum: “trúðu á sjálfa þig, þú getur meira en þú heldur.”